23 September 2008 12:00

Lögreglan hefur upplýst fíkniefnamál sem kom upp á Sauðárkróki þann 20. september s.l. Við húsleit þar var lagt hald á 450 grömm af kannabisefnum og 12 grömm af amfetamíni. Í tengslum við málið voru fjórir aðilar handteknir, einn á Sauðárkróki, tveir í Reykjavík og einn á Suðurnesjum. Auk þess var framkvæmd húsleit í Reykjavík í tengslum við málið þar sem hald var lagt fíkniefni og vopn. Kona á fimmtugsaldri var síðan úrskurðuð í gæsluvarðhald til 25. september. Hún hefur viðurkennt að hafa ætlað efnin til sölu á norðurlandi en hluti þeirra átti að vera til einkaneyslu. Öllum aðilum málsins hefur nú verið sleppt og telst málið upplýst. Að rannsókn málsins unnu lögreglan á Sauðárkróki, Akureyri, Suðurnesjum,  ávana-og fíkniefnadeild lögreglu höfðuborgarsvæðisins auk starfsmanna sérsveitar ríkislögreglustjóra. Mál þetta er árangur af samstarfi lögregluembætta á norðurlandi í baráttu gegn fíkniefnum.

Lögreglan minnir á fíkniefnasíma lögreglunnar 800-5005 þar sem hægt er að koma á framfæri nafnlausum ábendingum um meint fíkniefnamisferli.