5 Mars 2008 12:00

Lögreglan á Vestfjörðum lagði hald á um 400 grömm af hassi í húsleit sem framkvæmd var í heimahúsi á Ísafirði í gærdag.  Húsráðandi, karlmaður á þrítugsaldri, var handtekinn í tengslum við rannsókn málsins, en hann hafði skömmu áður verið stöðvaður við almennt umferðareftirlit, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn hefur verið í haldi lögreglunnar þar til nú í dag en þá var honum sleppt.  Ekki var talin ástæða til að halda manninum lengur í þágu rannsóknar málsins.  Hann hefur áður komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála.

Af magninu að ráða má ætla að efnið hafi verið ætlað til sölu og dreifingar á norðanverðum Vestfjörðum.  Um er að ræða mesta magn fíkniefna sem lagt hefur verið hald á í einu lagi á Vestfjörðum til þessa.