10 Janúar 2006 12:00

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum framkvæmdi lögreglan á Ísafirði húsleit á heimili einu í umdæminu fimmtudaginn 5. janúar sl.  Við leitina fundust á sjötta tug gramma af hassi og rúmlega 100.000.- krónur í peningaseðlum, auk áhalda sem greinilega hafa verið notuð til kannabisreykinga.

Í framhaldi af húsleitinni voru tveir einstaklingar, annar tæplega tvítugur og hinn á þrítugsaldri, handteknir og færðir til yfirheyrslu.  Í þágu rannsóknar málsins lagði lögreglustjórinn á Ísafirði fram gæsluvarðhaldskröfu, fyrir Héraðsdómi Vestfjarða, föstudaginn 6. janúar sl.   Héraðsdómur samþykkti kröfu lögreglustjóra um að halda einstaklingunum til kl.16:00 í dag.  Rannsókn málsins hefur staðið yfir þessa daga og hafa nokkrir aðrir einstaklingar verið yfirheyrðir í tengslum við málið, auk þess sem annarra gagna hefur verið aflað.

Seint í gærkveldi var öðrum gæsluvarðhaldsfanganum sleppt, enda þótti hann þá ekki getað skaðað rannsókn málsins.  Nú um hádegisbilið í dag var hinum einstaklingnum sleppt.

Lögreglan á Ísafirði telur sig hafa, með rannsókn þessa máls, upplýst dreifingu á tæplega fimmtíu grömmum af hassi í haust sem leið og nú dreifingu á svipuðu magni síðustu vikurnar. Talið er að hassmagnið sem lögreglan lagði hald á í tengslum við mál þetta hafi átt að fara í dreifingu á svæðinu.

Rannsókn málsins stendur enn yfir.  Málið er litið mjög alvarlegum augum enda liggur fyrir játning gagnvart dreifingu kannabisefna á norðanverðum Vestfjörðum á undanförnum vikum. 

Lögreglan vill hvetja almenning til að vera á varðbergi gagnvart hugsanlegri meðhöndlun fíkniefna á svæðinu og gera lögreglu viðvart.  Nafnleyndar er að sjálfsögðu gætt vegna slíkra upplýsinga.