7 Janúar 2010 12:00

Lögreglumenn á Selfossi komust í gær á snoðir um fíkniefnaræktun í íbúðarhúsi í Hveragerði.  Við húsleit fundust á þriðjahundrað kannabisplöntur.  Maður sem var í íbúðinni var handtekinn og færður í fangageymslu.  Ræktunin var í fullum gangi.  Á staðnum fannst á annað kíló af tilbúnu marijúana auk þess var þar lítið eitt af hassolíu.  Hald var lagt á plönturnar, marijúanablöðin og allan búnað tengdan ræktuninni.  Húsráðandi var yfirheyrður í gær og aftur í dag.  Hann játaði að hafa staðið að ræktuninni og að hann hefði verið einn um hana.  Þegar plönturnar og fíkniefnin hafa verið vegin, mæld og rannsókn lokið verður málið sent til ákæruvalds til frekari ákvörðunar. 

Við ræktunina voru notaðir gróðurhúsalampar.  Það er mikið áhyggjuefni að menn skuli notast við slíka lampa inni í íbúðarhúsi.  Í lömpunum eru 600 watta perur sem hitna mikið.  Af þeim getur hlotist eldhætta ef þeir eru hafðir í þröngu rými og hvað þá ef verið er að hylja þá.  Einnig má búast við því að lamparnir hafi orðið fyrir hnaski í meðförum þessara manna og lamparnir í misgóðu ástandi.