13 Nóvember 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum handtekið tvo fíkniefnasala og haldlagt umtalsvert magn kannabisefna. Í húsleit, sem gerð var í íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ fannst poki með kannabisefnum í loftljósi í stofunni. Talsvert var af umbúðum utan af kannabisefnum á stofuborðinu. Fíkniefnaleitarhundur lögreglunnar fann svo til viðbótar tuttugu poka með kannabisefnum í stigagangi hússins.

Félagi mannsins hafði daginn áður verið handtekinn með kannabisefni í níu sölupakkningum á sér. Við húsleit í það skiptið fannst kannabis út um alla íbúð, ásamt kannabisfræjum. Það var í annað skipti á skömmum tíma sem sá var tekinn vegna fíkniefnasölu, því áður hafði lögregla gert húsleit hjá honum og þá fundust um 100 grömm af kannabisefnum, ýmist í söluumbúðum eða stærri pokum, auk lítillar vogar.

Laug til nafns

Tæplega tvítugur ökumaður, sem lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut um helgina laug til nafns þegar lögregla ræddi við hann. Ökumaðurinn, nítján ára stúlka, ók á 132 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Hún var ekki með skilríki en sagði til nafns, sem reyndist vera nafn jafnöldru hennar. Stúlkan á yfir höfði sér kæru  fyrir rangar sakargiftir og skjalafals, auk umferðarlagabrots.

Auk ofangreinds ökumanns hefur lögreglan á Suðurnesjum á undanförnum dögum stöðvað tíu ökumenn sem allir óku of hratt.  Einn til viðbótar ók sviptur ökuréttindum og annar með útrunnið ökuskírteini.