2 Janúar 2013 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gærkvöld tæplega tvítugan karlmann vegna gruns um fíkniefnaakstur og sölu fíkniefna. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu neyslu mannsins á kannabis, amfetamíni og metamfetamíni. Við svo búið fór lögregla í húsleit á heimili hans. Við leitina fannst talsvert af fíkniefnum, bæði kannabis og meint amfetamín. Einnig tól og tæki til neyslu fíkniefna.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál.

Flugeldar sprungu við eldamennsku

Það óhapp varð í Njarðvík á gamlársdag að flugeldar sprungu í eldhúsi á heimili einu. Húsráðandi var að elda áramótasteikina og geymdi flugelda, sem hann hugðist kveðja gamla árið með, við hlið eldavélarinnar. Við hitann frá henni sprungu flugeldarnir og við það kom upp minni háttar eldur. Auk lögreglunnar á Suðurnesjum kom slökkvilið á vettvang en þá hafði húsráðandi slökkt eldinn. Hann slapp ómeiddur, en var að vonum brugðið eftir atvikið. Ekki reyndist þörf á að reykræsta húsnæðið