13 Desember 2006 12:00

Í gær (12. desember 2006) lagði lögreglan á Ísafirði hald á 50 gr. af hassi, hjá rúmlega tvítugum manni á Ísafirði.  Sá maður var í haldi lögreglunnar í sólarhring vegna gruns um fíkniefnamisferli, sem var til rannsóknar hjá lögreglunni á Ísafirði.  Rannsókn málsins laut að meintri fíkniefnadreifingu á norðanverðum Vestfjörðum undanfarnar vikur og mánuð.  Maðurinn er grunaður um að hafa sótt nokkuð meira magn fíkniefna, en lagt var hald á, til Reykjavíkur nýlega og flutt þau til Ísafjarðar í þeim tilgangi að selja þau þar og í nágrenni.  Í tengslum við rannsókn þessa máls naut lögreglan á Ísafirði aðstoðar lögreglunnar í Reykjavík, en þar var annar karlmaður handtekinn og yfirheyrður vegna sama máls.  Sá maður er grunaður um að hafa komið að efnisöfluninni.

Maðurinn, sem lögreglan á Ísafirði var með í haldi, hefur ekki áður komið við sögu vegna fíkniefnamála.  Honum var sleppt lausum í gærkveldi.  Hins vegar hefur maðurinn, sem lögreglan í Reykjavík yfirheyrði, áður komið við sögu vegna fíkniefnamála.  Honum var sleppt í dag.  Málið telst vera upplýst.