23 Júní 2012 12:00

Varla líður svo dagur að ekki sé  tilkynnt um lausa hunda til lögreglunnar á Suðurnesjum. Í gær var tilkynnt um hóp hunda, ein fimm stykki, sem voru að þvælast lausir um í Keflavík. Tilkynningunni fylgdi að þessir hundar væru iðulega frjálsir ferða sinna. Í gær var einnig tilkynnt um lausan hund sem hafði verið að væflast við hús tilkynnanda lengi dags. Lögregla gerði hundaeftirlitsmanni viðvart og beinir þeim tilmælum til hundeigenda að fara settum reglum í þessum efnum.

Hestaslys við Mánagrund

Það óhapp varð í vikunni að kona kastaðist af hesti sínum við Mánagrund í Keflavík og skall hún í jörðina. Hún hafði verið í útreiðartúr með vinkonu sinni þegar atvikið átti sér stað. Hestur hinnar fyrrnefndu spyrnti skyndilega við fótum með þeim afleiðingum að hún kastaðist fram fyrir hann. Hún tjáði lögreglu að hún hefði lent á grúfu og hefði átt erfitt með öndun um tíma eftir það.

Sprautunálar við hafnarvigtina

Vegfarandi kom á lögreglustöðina á Hringbraut í Reykjanesbæ í vikunni og kvaðst hafa sér sprautunálar við hafnarvigtina í Keflavík. Lögregla fór á staðinn of fann þar fimm sprautunálar sem allar höfðu verið notaðar. Þess eru dæmi að sprautunálar finnist á víðavangi og beinir lögregla þeim tilmælum til fólks að láta tafarlaust vita ef það rekst á slíka hluti, því þeir  geta reynst hættulegir lendi þeir í höndum barna.