1 Mars 2013 12:00

STEFNT er að því að finnska lögreglan fái forvirkar rannsóknarheimildir á næsta ári. Þetta kom fram á fundi í Kaupmannahöfn í vikunni,  sem fulltrúi greiningardeildar ríkislögreglustjóra sótti.

Á fundinum,  sem haldinn var á vettvangi samstarfs lögreglu og tollgæslu á Norðurlöndum (Politi og Told i Norden – PTN), kom fram að fyrir finnska þinginu liggur nú frumvarp, sem kveður á um að forvirkar rannsóknarheimildir verði útvíkkaðar í Finnlandi þannig að þeim megi beita í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi.  Flest bendir til þess að frumvarpið verði samþykkt.

Í Finnlandi sem og á öðrum Norðurlöndum er það einungis öryggislögreglan, sem hefur yfir slíkum rannsóknarheimildum að ráða. Á öllum Norðurlöndum, að Íslandi frátöldu, eru starfræktar deildir öryggislögreglu, sem einkum er ætlað að vinna gegn og rannsaka hryðjuverkaógn og aðra glæpi, sem beinast að innra öryggi ríkisins.

Nú er ætlunin að sá hluti finnska lögregluliðsins, sem fæst við skipulagða brotastarfsemi og aðra alvarlega glæpi, fái einnig forvirkar rannsóknarheimildir.  Í Svíþjóð verður vart aukins þrýstings um að farið verði að dæmi Finna.

Aukin alþjóðleg  glæpastarfsemi

Forvirkar rannsóknarheimildir miða að því að fyrirbyggja og rannsaka alvarlega glæpastarfsemi jafnvel þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið brot.  Hnattvæðingu og Evrópusamruna hefur fylgt að í vöxt færist að glæpastarfsemi nái yfir landamæri. Þetta á ekki  síst við um fíkniefnasmygl og  –framleiðslu, vændi, mansal, skipulagða þjófnaði „farandglæpamanna“ og  peningaþvætti og önnur  efnahagsbrot.