20 Mars 2020 18:47

Lögreglan sinnir margvíslegum störfum við að þjónusta borgara þessa lands.

Fjarskiptamiðstöð (FMR) er stoðdeild við lögregluumdæmin í landinu og sinnir samræmingarhlutverki við lögregluliðin.

FMR tekur við símtölum og verkefnum frá 112 sem ætluð eru lögreglu, forgangsraðar þeim og annast stýringu alls útkallsliðs lögreglu til verkefna.

FMR er því tenging borgarans við lögregluna sem og við lögreglumenn sem starfa úti á vettvangi.

FMR hefur tekið upp breytt verklag til að verja starfsemina nú á tímum COVID-19. Viðfangsefni og þjónusta fjarskiptamiðstöðvarinnar eru þess eðlis að ganga þarf langt í því að verja hana.

Megum aldrei loka

Aðspurður í fjölmiðli um hvort einhverjar stofnanir mættu aldrei loka og verða alltaf að starfa svaraði Víðir Reynisson, yfir­lög­reglu­þjónn hjá ríkis­lög­reglu­stjóra, því til að „Við erum hér með Neyðarlínuna, stjórnstöð Landhelgisgæslunnar (LHG) og fjarskiptamiðstöð lögreglunnar (FMR). Þetta eru þær þrjár stoðir sem mega aldrei loka og eru ákveðinn kjarni eða hjartað í viðbragðsstarfseminni. Við getum aldrei látið þær loka…“ .

Breytt verklag

Í breyttu verklagi felst nýtt vaktaplan þannig að nú vinna lögreglumenn á tvískiptum vöktum, tveir hópar sinna einungis næturvöktum og aðrir tveir hópar dagvöktum einungis, þar til faraldurinn gengur yfir. Slíkar vaktir eru krefjandi og þungar en til þess fallnar að takmarka smit milli vaktahópa. Það er þakkarvert hve starfsmenn hafa verið liprir við að takast á við breytt verklag. Einnig er búið að ná inn á viðbragðslista lögreglumönnum sem hafa reynslu af sérhæfðum störfum á fjarskiptamiðstöð. Koma þeir inn til starfa á fjarskiptamiðstöð ef þörf krefur.

Sama vaktkerfi var sett á hjá Neyðarlínunni (112) og stjórnstöð LHG og var samráð á milli þessara eininga haft um það.

Beddar ef á þarf að halda

Búið er að hólfa starfsemina af þannig að t.d. er aðgengi utanaðkomandi aðila engin. Einnig er samgangur innan hússins takmarkaður. Mötuneyti hefur verið lokað. Þá er búið að koma fyrir hvíldaraðstöðu í húsinu ef svo þrengist um starfsemina að ekki verður unnt að viðhalda núverandi vaktkerfi.

Allir teygja sig langt

Ráðstafanir þessar miða að því að verjast smiti svo starfsemi fjarskiptamiðstöðvar haldist órofin. Við á FMR gerum okkur hinsvegar vel grein fyrir alvöru málsins og teygjum okkur því langt til að geta þjónustað samborgarana og lögregluliðin áfram á sem bestan og skilvirkastan máta. Við erum öll almannavarnir!

Gylfi Hammer Gylfason,

aðstoðaryfirlögregluþjónn.