5 Apríl 2005 12:00

Nokkur erill var í morgun hjá þeim lögregluembættum á suðvesturhorni landsins sem fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra þjónustar. Þá kom að góðum notum TETRA fjarskipta- og staðsetningarkerfið sem fjarskiptamiðstöðin notar. Þegar tilkynning um umferðarslys í Kollafirði barst til fjarskiptamiðstöðvarinnar á ellefta tímanum var strax farið í það að athuga staðsetningar á lausum lögreglubílum í nágrenni Kollafjarðar. Þá kom í ljós á staðsetningarkorti fjarskiptamiðstöðvar að laus bíll frá embættinu á Akranesi var á ferð stutt frá slysstaðnum og var hann þegar sendur þangað. Með sama hætti komu lögreglumenn frá Hvolsvelli á leið um Hellisheiði  til aðstoðar lögreglunni á Selfossi vegna umferðarslyss í Kömbunum.

Samhæfing lögregluliða er einn af megin kostum fjarskiptamiðstöðvarinnar. Hún eflir samstarf milli lögregluembætta og tryggir betri þjónustu lögreglunnar við almenning.