19 Apríl 2005 12:00

Á næstunni munu sjö lögregluumdæmi til viðbótar tengjast fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um Tetra fjarskiptakerfið eftir að nýir sendar hafa verið settir upp fyrir lögregluna á Hvolsvelli, í Vík, Vestmannaeyjum, á Akranesi, í Borgarnesi, á Akureyri og Ísafirði. Verða umdæmin þá 13 talsins sem tengjast fjarskiptamiðstöðinni.

Í nýútgefinni reglugerð um fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra segir að starfssvæði fjarskiptamiðstöðvarinnar nái til landsins alls. Stækkun Tetra svæðisins, sem nú er unnið að, er mikilvægur þáttur í því öryggishlutverki að tengja öll lögregluliðin við eina fjarskiptamiðstöð.

Tækjabúnaður fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra er einn sá fullkomnasti sem völ er á. Samstarf fjarskiptamiðstöðvar og Neyðarlínunnar, 112, undir sama þaki, eykur öryggi borgaranna og með því að tengja öll lögregluliðin saman styttist útkallstími lögreglunnar og lögregluliðin nýtast betur við almenna löggæslu.