10 Desember 2012 12:00

Fjögur þjófnaðarmál  voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. GPS-tæki var stolið úr bifreið í Njarðvík. Enn fremur var númeraplötum stolið af bifreið, einnig í Njarðvík. Þær fundust í næsta garði og var þá búið að eyðileggja þær. Þá var tveimur myndbandstökuvélum og einni  myndavél stolið af kennarastofu Keilis.  Loks var tilkynnt um þjófnað á 300 lítrum af olíu af vörubifreið í Grindavík. Það athæfi átti sér stað fyrir nokkrum dögum, en hafði láðst að tilkynna það fyrr en nú.

Ofangreind mál eru til rannsóknar hjá lögreglu, sem biður þá, er kunna að geta gefið upplýsingar, að hafa samband í síma 420-1800.

Menn eltu blaðburðarkonu

Lögreglunni á Suðurnesjum barst á laugardagsmorgun tilkynning þess efnis að tveir menn á dökkleitri bifreið hefðu verið að elta blaðburðarkonu, sem var að störfum í Keflavík snemma morguns. Konan varð skelfingu lostin, tók til fótanna og bankaði upp á í næsta húsi, þar sem hún dvaldi þar til lögreglan kom. Húsráðendur þar kváðust einnig hafa séð bifreiðina lóna inn götuna. Lögreglan rannsakar málið og biður þá sem kunna að geta gefið upplýsingar um það að hafa samband í síma 420-1800.

Margvísleg fíkniefni í blóði ökumanna

Lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina þrjá ökumenn vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna. Um var að ræða tvo karlmenn og eina konu. Sýnatökur leiddu í ljós að tveir ökumannanna höfðu neytt margvíslegra fíkniefna. Annar þeirra viðurkenndi neyslu á morfíni, rítalíni, amfetamíni og kannabis. Hinn reyndist hafa neytt amfetamíns og ópíumblandaðra efna. Sýnatökur staðfestu að þriðji ökumaðurinn hafði neytt kannabisefna. Tveir ökumannanna eru rúmlega tvítugir en sá þriðji rúmlega fertugur.