11 September 2023 16:01
  • Litlar breytingar á milli ára í fjölda heimilisofbeldismála sem tilkynnt eru til lögreglu
  • Um 2/3 tilvika ofbeldi af hendi maka/fyrrum maka
  • Um 150 tilvik þar sem um er að ræða fjölskyldutengsl, þar af fjórðungur þolenda börn

Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2023 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar.

Tilkynnt var um 569 heimilisofbeldistilvik fyrstu 6 mánuði ársins, ef litið er til alls landsins. Er það um 20 tilvikum færra en yfir sama tímabil í fyrra (↓4%). Tilvikum fjölgaði um næstum fjórðung milli fyrstu sex mánaða áranna 2019 og 2020 en fjöldi tilvika hefur haldist tiltölulega stöðugur síðan þá.

Um 2/3 tilvika eru ofbeldi af hendi maka/fyrrum maka, og ef þessi tilvik eru greind nánar má sjá að það sem af eru ári eru um 80% tilvika árásaðili karl, og í um 76% tilvika árásarþoli kona skv. gögnum lögreglu. Geta má þess að við upphaf rannsóknar máls eru stundum báðir aðilar skráðir brotaþolar á fyrstu stigum málsins miðað við framburð beggja aðila. Þá má geta þess að flestir grunaðir voru á aldrinum 26-35 ára, eða 41%.

Þegar um var að ræða fjölskyldutengsl voru tilvikin um 150 fyrsta hálfa árið og má sjá að í 24% tilvika voru árásarþolar börn, og gat þá verið um að ræða að sá sem réðst að barninu væri foreldri eða systkin.

Ef litið er til ágreiningsmála, sem eru minna alvarleg en heimilisofbeldismálin, að því leyti að ekki er grunur um brot, þá má sjá að slík tilvik eru svipuð að fjölda og yfir sama tímabil í fyrra.

Skýrsluna má finna hér.

Skilgreining á heimilisofbeldi hjá lögreglu

Lögreglan skilgreinir heimilisofbeldi sem brot sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks. Grunur getur þá verið um brot á borð við líkamsárásir, hótanir, eignaspjöll o.fl. og virkjast þá verklag ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála. Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra. Mikilvægt þykir að skrá bæði ágreining og heimilisofbeldi til að fá heildstæða mynd af tilvikum og hvort tilvik leiði til ítrekaðra og alvarlegri atvika.

Ofbeldisgátt 112

Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Á ofbeldisgátt 112.is  má einnig finna nánari upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða.

Nánari upplýsingar Eygló Harðardóttir, verkefnisstjóri aðgerða gegn ofbeldi, eyglohardar@logreglan.is  og Guðbjörg S. Bergsdóttir, sérfræðingur á gagnavísinda- og upplýsingadeild, gudbjorgs@logreglan.is