17 Október 2006 12:00
Dómsmálaráðherra hefur tekið ákvörðun um að 48 nemendur muni hefja grunnnám við Lögregluskóla ríkisins á fyrstu önn í janúarbyrjun 2007 og sömuleiðis hefur hann fallist á tillögur skólans um lengingu á starfsþjálfunarönn þessa hóps.
Samkvæmt þessu mun fyrsta önn grunnnámsins standa yfir frá janúarbyrjun til aprílloka 2007, þá tekur við átta mánaða starfsþjálfun og að henni lokinni, í janúarbyrjun 2008, hefst þriðja og síðasta önn grunnnámsins. Nemendahópurinn mun samkvæmt þessu útskrifast í lok apríl 2008.
Með þessari ákvörðun telur dómsmálaráðherra að tækifæri skapist til frekari framþróunar lögreglunámsins um leið og gerðar séu ráðstafanir um fjölgun fagmenntaðra lögreglumanna.
Í samræmi við ákvörðun dómsmálaráðherra hefur valnefnd Lögregluskóla ríkisins boðið 48 umsækjendum um skólavist að hefja grunnnám við skólann í byrjun næsta árs. Í þeim hópi eru 14 konur, 29,17%.