26 Maí 2014 12:00

Samkvæmt tölum Samgöngustofu hefur skráðum reiðhjólaslysum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu úr 35 árið 2008 í 75 árið 2013. Séu þau slys borin saman við heildartölur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um fjölda slysa í umferð kemur fram að reiðhjólaslys voru 6,5% allra slysa árið 2008 en 20% árið 2013. Skýrist þessi fjölgun að hluta af betri skráningu lögreglu en ekki síður af fjölgun reiðhjóla í umferð.

Slysatölur lögreglu fyrir síðustu átta vikur sýna 24% hlutfall reiðhjóla og fer hækkandi með betri tíð og þar með aukinni umferð reiðhjóla. Lögregla brýnir af þessum sökum reiðhjólamenn til að fara varlega í umferðinni, hvort sem það er á reiðhjólastígum, göngustígum, gangstéttum eða götum, en mörg slysanna verða vegna falls af hjólunum. Þá ítrekar lögreglan nauðsyn þess að vegfarendur allir, hjólandi, gangandi og akandi, taki höndum saman og sýni hver öðrum ítrustu tillitssemi með það að markmiði að fækka þessum slysum.

Lögregla mun næstu daga kynna ákvæði Umferðarsáttmálans um það hvernig vegfarendur vilja að samskiptin séu milli reiðhjólamanna, gangandi vegfarenda og akandi, hver geri hvað og hvernig.