30 Maí 2007 12:00

Reykjanesbraut, Miklabraut, Bústaðavegur, Hringbraut og Vesturlandsvegur eru þær götur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem mest hefur verið um umferðaróhöpp það sem af er þessu ári. Fyrstu fjóra mánuði ársins urðu 105 umferðaróhöpp á Reykjanesbraut sem er fjölgun frá sama tíma og í fyrra er 92 óhöpp voru skráð. Þess skal getið að á Reykjanesbraut hafa staðið yfir miklar framkvæmdir sem kunna að skýra þessa aukningu að einhverju leyti.

Næstflest umferðaróhöpp áttu sér stað á Miklubraut en fjöldi þeirra frá ársbyrjun og til aprílloka er nánast sá sami og sömu mánuði í fyrra, um 100. Á Hringbraut eru tölurnar líka eins á milli ára en jafnmörg umferðaróhöpp voru tilkynnt fyrstu fjóra mánuðina 2007 og 2006, eða 73.

Á Vesturlandsvegi hefur hins vegar orðið mjög jákvæð þróun en þar hefur óhöppum fækkað umtalsvert. Það sem af er árinu hafa orðið þar 74 umferðaróhöpp en þau voru 99 á sama tímabili í fyrra. Að einhverju leyti má rekja þessa góðu útkomu til úrbóta á Vesturlandsvegi, þ.e. tvöföldun og fjölgun hringtorga.

Öllu verri tíðindi berast af Bústaðavegi en þar hefur umferðaróhöppum fjölgað um liðlega helming á umræddu tímabili og er það áhyggjuefni. Fyrstu fjóra mánuði ársins urðu þar 86 óhöpp en þau voru 55 á sama tíma í fyrra. Það skal tekið fram að Vegagerðin er að skoða möguleika á að draga úr slysahættu á Bústaðavegi en einn kafli vegarins sker sig nokkuð úr hvað óhöpp varðar. Það er sá hluti Bústaðavegar sem er brúaðar og liggur yfir Kringlumýrarbraut. Á þessum stað er mjög stutt á milli umferðarljósa og þar virðast margir ökumenn gleyma sér.