16 September 2008 12:00

Mikil ánægja var með íbúafund sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð fyrir í Ölduselsskóla á mánudagskvöld. Íbúar í Seljahverfi fjölmenntu á fundinn en á honum var kynnt skipulag löggæslu í hverfinu. Stefán Eiríksson lögreglustjóri fór jafnframt yfir stöðu mála og svaraði fjölmörgum fyrirspurnum en fundargestir voru nálægt tvö hundruð. Þeir höfðu nokkrar áhyggjur af innbrotum í hverfinu en tilkynnt var um átján innbrot í Seljahverfi fyrstu átta mánuði ársins. Á sama tímabili 2007 voru þau fimmtán og sextán árið þar á undan. Almennt hefur hinsvegar dregið úr hegningarlagabrotum í Seljahverfi í samanburði við meðaltal áranna 2006 og 2007. Á fundinum skapaðist mikil umræða um forvarnarstarf en í þeim efnum geta íbúarnir sjálfir gert heilmargt eins og t.d. með því að taka upp svokallaða nágrannavörslu.

Nánari upplýsingar um tölfræði fyrir Seljahverfi má nálgast hér.

Hér að neðan eru nokkrar myndir sem voru teknar á íbúafundinum í Ölduselsskóla.