6 Apríl 2014 12:00

Töluverður mannfjöldi var í og við miðbæ Akureyrar í gærkvöldi og nótt.  Erill var hjá lögreglunni á Akureyri í alla nótt.

Þrír gistu fangaklefa eftir nóttina, einn var handtekinn vegna heimilisófriðar og annar var handtekinn undir morgun er hann braut rúðu í hurð. Sá þriðji gisti fangaklefa vegna ölvunar. Þá voru höfð afskipti af aðila en á honum fannst lítilræði af fíkniefnum.  Þá var einn fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild eftir líkamsárás í miðbænum, hann er ekki talinn alvarlega slasaður. Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur og reyndist sá einnig ökuréttindalaus.  

Þá sinnti lögreglan fjölmörgum öðrum útköllum sem aðallega tengdust skemmtanalífinu í bænum.

Þegar á heildina er litið og miðað við þann gríðarlega mannfjölda sem var í bænum, þá gekk nóttin að öðru leyti frekar áfallalaust og vel fyrir sig.