13 Desember 2012 12:00

Síðdegis í gær handtóku lögreglumenn á vakt þrjá pilta vegna gruns um þjófnað á bifreið í Þorlákshöfn aðfaranótt þriðjudags.  Bifreiðin, sem er af Toyota Corolla gerð, fannst síðar um daginn stórskemmd í grjótnámu við Þorláksthöfn.  Af ummerkjum í námunni var ljóst að bifreiðinni hafði verið ekið fram og aftur yfir og á grjót og hún síðan nánast tætt í sundur.  Lögrelgumenn á dagvakt fór í að kanna málið sem leiddi til þess að síðdegis í gær handtóku þeir þrjá 17 ára pilta.  Einn þeirra var í síðustu viku handtekinn vegna skemmdarverks við Aratungu. Einn þeirra viðurkenndi að hafa í félagi við hina stolið bifreiðinni og skemmt hana.  Við leit hjá piltunum fannst bassabox sem stolið var úr bifreið á Selfossi fyrir stuttu og GPS tæki sem stolið var frá öðrum stað.  Fjórði pilturinn hefur verið handtekinn vegna þýfis sem fór um hendur hans til eins þremenninganna sem handteknir voru í gær.

Málið er upplýst og mun fara að rannsókn lokinni til ákæruvalds til frekari ákvörðunar.  Barnaverndaryfirvöldum var tilkynnt um atvikið að venju.