30 Nóvember 2011 12:00

Fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki í umdæminu hélt áfram í gær. Að þessu sinni voru Mosfellingar heimsóttir en þeir hafa jafnan verið mjög áhugasamir um löggæslumál. Engin breyting varð á því þetta árið en fundarmenn höfðu margs að spyrja. Umræðurnar voru hinar líflegustu og m.a. var rætt um hundahald, merkingar við vegaframkvæmdir, fíkniefni, notkun endurskinsmerkja og rafmagnsvespur.

Á fundinum var jafnframt farið yfir þróun brota í bæjarfélaginu undanfarin ár og einnig kynntar niðurstöður úr könnun um viðhorf íbúa til lögreglu, en tölfræðina frá fundinum má nálgast með því að smella hér. Innbrotum á svæðinu hefur almennt fækkað og er það vel. Til margra ára var lögreglustöð í Mosfellsbæ en frá lögreglustöðinni á Krókhálsi í Reykjavík er nú sinnt löggæslu í bænum. Heyra mátti á Mosfellingum að þeir vilja aftur fá lögreglustöð í bæinn. Hvort eða hvenær af því getur orðið skal ósagt látið. Til stóð að byggja nýja lögreglustöð við Skarhólabraut en af því hefur ekki orðið vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu.

Í Mosfellsbæ.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is