31 Október 2003 12:00

Á hverju ári verða óhöpp og slys í umferðinni sem rekja má til þess að illa er gengið frá farmi sem verið er að flytja og hann hrynur af flutningstækinu á götu og lendir á aðvífandi umferð. Þá eru dæmi um að flutningstæki eru ekki hæf til þess að flytja farm – jafnvel þau sem notuð eru í atvinnuskyni.

Umferðardeild ríkislögreglustjórans, í samvinnu við lögregluliðin, hefur afskipti af fjölda ökumanna á hverju ári sem flytja farm eins og hér er lýst og verður eftirliti á þessu sviði haldið áfram.

Í júlímánuði gaf dómsmálaráðuneytið út reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms, sem kemur í stað eldri reglugerðar um sama efni. Í nýju reglugerðinni eru ítarlegar leiðbeiningar með skýringamyndum um frágang farms og hvernig farmrými á að vera meðan flutt er.

Hér eru nefnd nokkur dæmi úr reglugerðinni: Farm skal skorða tryggilega og festa við ökutækið. Þannig skal frá gengið að farmurinn byrgi ekki útsýni ökumanns eða hætta sé á að hann hreyfist til eða falli af ökutækinu og valdi tjóni hvort heldur sem er í kyrrstöðu eða akstri. Farmur, sem ryk getur stafað frá eða fallið getur af ökutæki, skal bundinn með bindiefni (t.d. vatni) eða yfirbreiðslu. Þegar lekið getur úr farmi skal vera safnþró eða safngeymir í farmrýminu fyrir lekann. Vörulyfta skal vera í lóðréttri stöðu í akstri, eins og segir í reglugerðinni.

Við sjáum dæmi um það í umferðinni að þessi atriði eru oft í ólagi og það svo að stórfelld hætta og sóðaskapur stafar af.

Umferðardeild ríkislögreglustjórans minnir ökumenn á að vanda frágang farms sem á að flytja, festa hann tryggilega og muna að tæki sem notað er til að flytja farm skal útbúið í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, sem hægt er að nálgast hér >>