8 Maí 2008 12:00

Í dag lýkur samræmdum prófum í grunnskólum landsins. Vissum lokapunkti hefur verið náð og þungu fargi af mörgum létt. Ástæða er til að gera sér glaðan dag. Sem betur fer hefur þróunin orðið sú síðustu ár að unglingum í 10. bekk stendur ýmislegt skemmtilegt og uppbyggilegt til boða í tilefni prófloka. Unglingarnir hafa verið duglegir að nýta sér þær ferðir og skemmtanir sem skipulagðar eru á þessum tímamótum og nú er svo komið að hópasöfnun unglinga með ölvun og ólátum heyrir nánast sögunni til. Þennan góða árangur má m.a. þakka samstilltu átaki þeirra sem láta sig málefni ungmenna varða s.s. skólayfirvalda, starfsfólki félagsmiðstöðva, fjölmiðla, lögreglu og síðast en ekki síst – foreldra. Foreldrar gera sér æ betur grein fyrir skaðlegum áhrifum ótímabærrar áfengisneyslu á líf ungmenna. Þeir hafa með virkum hætti tekið ábyrgð á uppeldi barna sinna og spornað gegn hvers konar vímuefnaneyslu þeirra. Það hafa þeir m.a. gert með því að hvorki samþykkja unglingadrykkju né stuðla að henni með kaupum á áfengi handa unglingunum. Jafnframt hafa þeir staðið saman og ekki leyft eftirlitslaus partý á sínum heimilum, heldur verið til staðar og fylgst með að allt fari vel fram. Mikilvægt er að foreldrar og aðrir haldi áfram því góða starfi sem grunnur hefur verið lagður að þannig að lok samræmdra prófa verði skemmtilegur, áfallalaus og vímuefnalaus áfangi í lífi unglinganna okkar. Foreldrar, systkini, frændur og frænkur! Sýnum væntumþykju okkar í verki, virðum landslög og kaupum ekki áfengi fyrir ungmenni yngri en 20 ára!

Marta Kristín HreiðarsdóttirHöfundur er félagsfræðingur hjá forvörnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er fulltrúi hennar í SAMAN-hópnum.

Greinin hér að ofan birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 8. maí.