22 Apríl 2010 12:00

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti í morgun Samhæfingarstöðina í Skógarhlíð.  Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra tóku  á móti forsetanum sem sat síðan upplýsingafund með fulltrúum ýmissa aðila sem manna Samhæfingarstöðina við almannavarnaástand.

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Haraldur Johannessen og Ragna Árnadóttir

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Haraldur Johannessen og Ragna Árnadóttir

Fundinn sátu auk dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra, fullrúar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunnar, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rauða kross Íslands, Neyðarlínunnar, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Veðurstofu Íslands og raunvísindadeildar Háskóla Íslands. Á fundinum fór Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra yfir skipulag almannavarna vegna eldgossins,  hvernig það hafi verið virkjað, samstarf við vísindamenn og þær aðgerðir sem hafa staðið yfir frá upphafi eldgossins í Eyjafjallajökli.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði hjá Raunvísindastofnun Háskólans gerði grein fyrir framvindu eldgossins og útskýrði hina mismunandi fasa þess.  Hann fór einnig yfir hvernig staðið hafi verið að upplýsingaöflun m.a. með yfirlitsflugi þar sem teknar voru ratsjármyndir úr flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF sem hafi nýst einstaklega vel.

Guðrún Nína Petersen, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands  fór yfir verkefni Veðurstofunnar vegna eldgossins, gerð öskufallsspár og samstarf við erlenda samstarfsaðila. Hún fór yfir hvernig askan hefur dreifst og hvað sé hugsanlega framundan í þeim efnum.

Einnig var gerð grein fyrir því að vegna mjög mikillar athygli umheimsins á eldgosinu og afleiðingum þess á flugsamgöngur, var sett á fót sérstök upplýsinga- og fjölmiðlamiðstöð í samhæfingarstöðinni undir forystu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra með þátttöku fjömiðlafulltrúa frá ráðuneytum, stofnunum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Rauða krossi Íslands. Einnig var sett upp útstöð á Hvolsvelli. Hlutverk hópsins er að miðla upplýsingum til almennings, ráðuneytanna og viðkomandi stofnana auk þess að veita fjölmiðlum upplýsingar og fyrirgreiðslu.  Aðild að miðstöðinni eiga auk fulltrúa ríkislögreglustjóra fjölmiðlafulltrúar frá utanríkisráðuneytinu, Landhelgisgæslunni, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Rauða krossi Íslands, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, samgönguráðuneyti og Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.  Starfsmenn frá almannatengslafyrirtækinu Athygli hefur einnig tekið þátt í starfinu. 

Upplýsingamiðstöðin hefur sent upplýsingar jafnóðum til íslenskra stjórnvalda, erlendra sendiráða á Íslandi, íslenskra sendiherra, ferðaþjónustuaðila o.fl. Markviss upplýsingamiðlun hefur verið til fjölmiðlafólks með daglegum upplýsingafundum og starfræktar upplýsingastofur bæði í Samhæfingarstöðinni og á Hvolsvelli.

Að fundi loknum fór forsetinn um Samhæfingarstöðina og heilsaði upp á starfsfólk að störfum en auk þeirra aðila sem áður eru taldir voru þar að störfum fulltrúar frá Flugstoðum, Vegagerðinni, Landspítala háskólasjúkrahúsi, Landsneti sem er fulltrúi veitustofnana og fjarskiptafyrirtækinu Mílu sem er sér um upplýsingamiðlun fyrir fjarskiptafyrirtækin.

Forsetinn þakkaði starfsfólki Samhæfingarstöðvar fyrir vel unnin störf og óskaði því góðs og gleðilegs sumars. 

Forsetinn skoðaði að lokum þá aðstöðu sem sett hefur verið upp fyrir fjölmiðlamenn í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.

22. apríl 2010

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra