23 Maí 2003 12:00

Í morgun, kl.08:00, hélt Vá Vesthópurinn sinn þriðja morgunverðarfund á Hótel Ísafirði.  Þar voru mættir um 40 foreldrar, sem gæddu sér á staðgóðum morgunverði í boði Vá Vesthópsins og SKG veitinga meðan þeir hlýddu á fyrirlestra annars vegar frá lögreglunni á Ísafirði og hins vegar frá starfsmanni félagsmiðstöðvanna í Ísafjarðarbæ.  Hlynur Snorrason, lögreglufulltrúi, fjallaði um algengustu fíkniefni, áhöld og fleira sem eru aðallega notuð á Íslandi í dag, sagði frá þekktum neyslustöðum í nágrenni Ísafjarðar, fyrstu einkennum fíkniefnaneyslu og fleira er upplýsti foreldra um þann fíkniefnaheim sem blasir við ungmennum á Íslandi í dag.  Erik Ashley Newman, starfsmaður félagsmiðstöðvanna í Ísafjarðarbæ, sagði frá unglingamenningunni á Ísafirði í dag og hvatti foreldra til að standa saman við unglingauppeldi, veita börnunum það nauðsynlega aðhald sem þau þurfa á að halda á þessum viðkvæmu árum.

Um er að ræða tilraun sem greinilega hefur hitt í mark.  Fundirnir eru haldnir fyrir foreldra barna og unglinga og hafa fundirnir allir varðað forvarnir og umhyggju fyrir þessum gersemum okkar, sem börnin eru. Áður hafa starfsmenn skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, Grunnskólans á Ísafirði og Heilbrigðisstofnunarinnar í Ísafjarðabæ flutt erindi er öll snúast um börn, unglinga og annað er varðar uppeldismál. 

Fundartíminn er með sérstöku sniði, þ.e.a.s. á vinnutíma flestra, milli kl.08:00 og 09:00 á föstudagsmorgnum.  Atvinnurekendur hafa tekið vel í þessa tilraun og margir gefið starfsmönnum frí á launum til að sækja þessa fyrirlestra.