16 Mars 2006 12:00

Nú í vikunni stóð Forvarnarhópur sem er að störfun í Rangárþingi fyrir tveimur fræðslufundum með foreldrum grunnskólabarna.  Fundir voru haldnir í Grunnskólanum Hellu síðastliðið þriðjudagskvöld og á miðvikudagskvöld var fundur í Hvolsskóla á Hvolsvelli.

Árni Þorgilsson æskulýðs- og menningarfulltrúi Rangárþings eystra sagði frá undirbúningi og störfum forvarnarhópsins sem starfað hefur frá 2004.  

Álfgeir Logi Kristjánsson frá Rannsókn og greiningu gerði grein fyrir könnun sem lögð var fyrir nemendur skólanna í mars 2003 til 2005 og kynnti niðurstöður þeirrar könnunar.  Könnunin tók á þáttum er lýtur að högum og líðan ungs fólks í Rangárþingi m.a. út frá tóbaks-áfengis- og annarrar vímuefnaneyslu.  Niðurstöður rannsóknarinnar eru væntanlegar inn á netið innan tíðar.

Kjartan Þorkelsson sýslumaður kynnti forvarnarstefnu fyrir Rangárþing sem hefur verið í vinnslu frá 2004 en þar er tekið á flestu því sem snýr að mannlegum samskiptum í nútíma samfélagi, milli einstaklinga, stofnana og félaga í nútíð og framtíð.  Í forvarnarstefnunni er ekki einblýnt á vímuefnamálin heldur samfélagið í heild sinni með það að markmiði aðgera gott samfélag enn betra t.d. með jákvæðum aga, góðri umgengni og virðingu við land og lýð. 

Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar á fundinum í Hvolsskóla.