29 September 2014 12:00

Tveir karlmenn, á tvítugs- og þrítugsaldri hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 3.október nk. á grundvelli rannsóknarhagsmuna vegna rannsóknar á máli sem varðar frelsissviptingu, rán og alvarlega líkamsárás.

Hinir grunuðu eru taldir hafa neytt karlmann á þrítugsaldri upp í bifreið, í Kópavogi, uppúr hádegi á laugardag og svipt hann frelsi sínu í nokkrar klukkustundir. Í kjölfarið hafi þeir beitt viðkomandi ofbeldi og kúgað fórnarlambið til að afhenda þeim fjármuni. Hinir grunuðu slepptu árásarþola sem leitaði þá aðstoðar lögreglu. Brotaþoli þurfti að leita sér aðhlynningar á slysadeild. Áverkar hans voru alvarlegir en þó ekki lífshættulegir. Hinir grunuðu hafa áður komið við sögu lögreglu.

Lögreglan getur ekki veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu vegna rannsóknarhagsmuna.