16 Október 2009 12:00

16. október 2009

Fréttatilkynning frá Lögreglunni á Suðurnesjum

Litháíska konan sem Lögreglan á Suðurnesjum lýsti eftir í gær er komin fram heil á húfi. Ábending barst um konuna í Reykjavík og handtók Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hana þar laust fyrir miðnætti í gærkvöldi. Mál konunnar sætir áframhaldandi rannsókn Lögreglunnar á Suðurnesjum og beinist m.a. að því að upplýsa hver konan er auk mansalsþáttarins.

Gæsluvarðhald yfir mönnunum þremur sem taldir eru tengjast máli konunnar rennur út síðar í dag en Lögreglustjórinn á Suðurnesjum mun krefjast framhalds á gæsluvarðhaldi þeirra vegna rannsóknarhagsmuna.

Talið er víst að fjórði maðurinn, Vitalius Gejer, sem lýst var eftir vegna málsins í gær, hafi farið af landi brott í síðust viku. Ekki er vitað hvenær eða hvort hann muni snúa aftur til landsins.

Lögreglan á Suðurnesjum vill þakka almenningi og fjölmiðlum fyrir frábæra aðstoð við rannsókn málsins en fjölmargar ábendingar bárust lögreglu frá almenningi og mikil umfjöllun fjölmiðla átti sinn þátt í að konan fannst eins fljótt og raun varð á.

Ný fréttatilkynnig mun berast frá Lögreglunni á Suðurnesjum síðdegis í dag þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um framgang málsins.