22 Febrúar 2012 12:00

Maður framvísaði fölsuðu skilríki í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á mánudaginn síðasta, þann 20. febrúar. Hann hafði verið að koma til landsins með flugi frá Noregi. Er höfð voru afskipti af honum í flugstöðinni framvísaði hann frönsku kennivottorði sem reynist grunnfalsað. Maðurinn kveðst vera alsírskur ríkisborgari. Mál mannsins er nú í rannsókn m.a. með það að markmiði að reyna að staðfesta hver hann er svo og að kanna hvort hann kunni að vera eftirlýstur. Grunur er um að hann hafi dvalið í Evrópu í hátt á annað ár. Maðurinn óskar nú eftir hæli á Íslandi.

Frá áramótum hafa þrjú fölsunarmál komið upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en að auki var maður stöðvaður í flugstöðinni í janúarmánuði sem ekki hafði nein skilríki meðferðis. Sá kveðst vera frá Nígeríu.

Allt árið 2011 komu 33 fölsunarmál upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Af þeim sem voru stöðvaðir reyndust flestir vera frá Nígeríu, eða 6 talsins. Fjórir voru frá Eþíópíu og Írak, tveir frá Albaníu, Georgíu, Lettlandi, Líberíu og Sómalíu og einn frá Afganistan, Alsír, Fílabeinsströndinni, Gambíu, Kongó, Pakistan, Palestínu, Súdan og Úkraínu.

Í miklum meirihluta tilfella reyndist um evrópsk skilríki að ræða. Haldlögð skilríki voru flest frá Ítalíu, eða í 6 tilfellum. Í fimm tilfellum frá Svíþjóð, tveimur tilfellum frá Georgíu, Írak, Kanada, Nígeríu og Tékklandi og í einu tilfelli frá Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Ísrael, Lettlandi, Litháen, Líberíu, Malasíu, Noregi, Pakistan og Portúgal.

Flestir þeirra sem framvísuðu fölsuðum skilríkjum í flugstöðinni komu með flugi til landsins frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Af þeim 33 sem stöðvaðir voru með fölsuð skilríki í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2011 sóttu 28 um hæli á Íslandi.

Fölsunarmál í Flugstöð Leifs Eiríkssonar koma jafnan flest upp á vorin, sumrin og haustin. Óvenju mörg slík mál hafa þó komið upp núna í desember, janúar og febrúar.

Í flugstöðvardeild lögreglustjórans á Suðurnesjum starfa 19 lögreglumenn. Um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fóru um 2,1 milljón farþega árið 2011 – en það er fjölgun um tæp 18% frá árinu 2010. Á árinu 2012 mun flugfélögum sem fljúga til Íslands fjölga og jafnframt áfangastöðum sem flogið verður til. Spáð er mikilli fjölgun farþega á árinu miðað við síðasta ár.