9 Febrúar 2010 12:00

Útlendingastofnun ákvað að kvöldi mánudagsins 8. febrúar 2010 að synja norskum einstakling, sem talinn er foringi glæpasamtakanna Hells Angels í Noregi, um leyfi til landgöngu á Íslandi, en hann hafði komið til Íslands frá Ósló fyrr um daginn. Hann hélt af landi brott að morgni þriðjudagsins 9. febrúar.

Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli mats lögreglu. Niðurstaða þess mats var eftirfarandi:

• Koma viðkomandi til Íslands tengist án vafa fyrirhugaðri inngöngu íslenska vélhjólaklúbbsins MC Iceland í Hells Angels-glæpasamtökin. Við þá inngöngu mun íslenski hópurinn fá stöðu fullgildrar deildar innan Hells Angels.

• Samstarf MC Iceland og erlendra deilda Hells Angels sem og fyrirhuguð innganga íslenska hópsins í samtökin skapar hættu á aukinni skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og felur því í sér ógn við samfélagið.

 Forsendur mats lögreglu voru þessar:

Alls staðar þar sem Hells Angels hafa náð að skjóta rótum hefur aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið. Skipulögð glæpastarfsemi beinist gegn almannahagsmunum enda hafa afbrot sem henni fylgja áhrif á samfélagið og öryggi almennings.

Fram hefur komið í íslenskum fjölmiðlum að MC Iceland (áður Fáfnir) hafi hlotið viðurkenningu sem stuðningsdeild Hells Angels á Íslandi. Fyrirliggjandi upplýsingar eru á þann veg að stefnt sé að því að vélhjólaklúbburinn MC Iceland fái fulla aðild að Hells Angels-samtökunum árið 2010. Nú þegar hafa orðið þáttaskil í starfsemi klúbbsins. Hann hefur náð lokastigi þess að verða fullgild og sjálfstæð deild í alþjóðasamtökum Hells Angels. Það þýðir að staða klúbbsins hefur gjörbreyst og opnað fyrir frekari hættu á sviði skipulagðrar brotastarfsemi.

Inngönguferli MC Iceland hefur verið stýrt frá Hells Angels-samtökunum í Noregi.

Uppbygging hinnar íslensku deildar Hells Angels hefur um flest verið í samræmi við forskriftir Hells Angels. Félagar í MC Iceland hafa gengist undir skilmála Hells Angels.

Til þess að hljóta fulla aðild mun íslenski hópurinn þurfa að geta sýnt fram á að starfsemi og skipulag sé í samræmi við kröfur Hells Angels. Þetta eykur hættu á aukinni skipulagðri glæpastarfsemi af hálfu íslensku félaganna.

Minnt er á að mjög algengt er að félagar í Hells Angels hafi hlotið refsidóma fyrir alvarleg afbrot og ljóst er að í röðum þeirra er að finna marga ofbeldismenn. Þetta á við um nokkra félaga í MC Iceland, Íslandsdeild samtakanna.

Með samstarfi við erlendar deildir Hells Angels hefur hópur manna hér á landi efnt til formlegrar samvinnu við aðila sem í mörgum tilfellum eru harðsvíraðir, þaulskipulagðir og hættulegir glæpamenn. Þau kynni og þau tengsl auka því hættu á að íslensku félagarnir taki upp aðferðir og starfshætti erlendra vítisengla. Raunar kann slík krafa að koma fram af hálfu erlendu félaganna.

Í Danmörku hafa félagar í Hells Angels og stuðningsklúbbum þeirra mjög látið til sín taka í blóðugum átökum sem þar standa og tengd eru skipulagðri glæpastarfsemi innflytjendagengja og vélhjólamanna. Skálmöld ríkir í höfuðborginni, Kaupmannahöfn.

Átökin í Kaupmannahöfn sem kostað hafa mannslíf eru ekki síst tengd stöðu þessara hópa á fíkniefnamarkaði. Í febrúarmánuði 2009 var frá því greint í dönskum fjölmiðlum að ákveðið hefði verið að ráða til starfa 140 lögregluþjóna þar í landi sem eingöngu er ætlað að hefta glæpastarfsemi vélhjólamanna og gengja innflytjenda.

Framhjá ofangreindu verður ekki horft þegar lagt er mat á þá hættu sem fylgja kann komu félaga í Hells Angels og stuðningsklúbbum þeirra hingað til lands.

Á Norðurlöndum líta stjórnvöld á skipulögð glæpasamtök vélhjólamanna á borð við Hells Angels sem vaxandi samfélagsógn. Ríkislögreglustjórar Norðurlandanna hafa mótað þá skýru stefnu með stuðningi ríkisstjórna landanna að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi mótorhjólagengja. Embætti ríkislögreglustjóra á Norðurlöndum vinna í sameiningu að þessu markmiði. Ríkislögreglustjóri hefur frá árinu 2002 lagt fyrir lögreglustjóra á Íslandi að framfylgja þessari stefnu. Í samræmi við þetta hefur ítrekað komið til þess á undanliðnum árum að félögum í Hells Angels hafi verið meinuð landganga við komu sína til Íslands.

Það er mat lögreglunnar að meina beri erlendum félögum í Hells Angels landgöngu m.a. með það að markmiði að sporna við fyrirhuguðu inngönguferli MC Iceland í Hells Angels.