14 Júní 2010 12:00

Fréttatilkynning frá Lögreglunni á Suðurnesjum

varðandi rannsókn á ætluðu manndrápi

Rúmlega þrítugur karlmaður hefur játað að vera valdur að dauða 53 ára karlmanns sem fannst látinn og með alvarlega áverka utandyra við Bjarnarvelli í Reykjanesbæ að morgni 8. maí sl. Blaðberi kom að hinum látna og hafði samband við Neyðarlínuna.

Grunur beindist fljótlega að rúmlega þrítugum manni  sem var handtekinn í kjölfarið grunaður um að hafa orðið manninum að bana og hefur hann setið í gæsluvarðhaldi síðan 9. maí vegna rannsóknar málsins og almannahagsmuna.

Fram hefur komið við rannsókn málsins að leiðir mannanna hafi legið saman við Bjarnarvelli fyrir tilviljun. Þeir þekktust ekki en höfðu báðir verið að skemmta sér um nóttina og voru undir áhrifum áfengis. Eftir að mennirnir höfðu átt orðaskipti er talið að yngri maðurinn hafi veist að þeim eldri með þeim afleiðingum að hann hlaut meðal annars alvarlega höfuðáverka og lést af þeirra völdum.

Sakborningur hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til kl. 16 í dag en að kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir Héraðsdómi Reykjaness var hann úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald allt til mánudagsins 12. júlí n.k., kl. 16:00, á grundvelli almannahagsmuna.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur farið með rannsókn málsins og notið aðstoðar frá tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Rannsókn er vel á veg komin en enn er beðið eftir niðurstöðum úr ýmsum sérfræðirannsóknum.