19 Desember 2006 12:00
Bruni í Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins.
Kl. 19:45 laugardagskvöldið 16. desember barst lögreglunni í Vestmannaeyjum tilkynning um bruna í Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins við austurenda Ægisgötu. Allt tiltækt slökkvilið bæjarins var ræst út svo og Björgunarfélag Vestmannaeyja.
Þegar að var komið var mikill eldur í geymsluþró austan við verksmiðjuhúsið og logaði eldur upp úr þaki. Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins en nokkur hætta skapaðist þar sem töluverður eldsmatur var þrónni og hún tengd verksmiðjuhúsinu. Þar var einnig töluvert magn af edikssýru sem lak niður þegar gat kom á geymsluílát sem hún var í. Óskað var eftir aðstoð eiturefnadeildar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og komu til Eyja slökkviliðsmenn með efni og búnað til aðstoðar slökkviliði Vestmannaeyja. Á meðan á slökkvistarfi stóð var lokað fyrir umferð um miðbæinn til öryggis. Slökkvistarfi lauk á ellefta tímanum.
Mikil mildi var að ekki fór verr og má þar bæði þakka stilltu veðri og skjótum viðbrögðum Slökkviliðs Vestmannaeyja auk fjölmargra sem komu til aðstoðar á vettvangi. Lögreglan vill að því tilefni þakka öllum þeim er komu að þessu slökkvistarfi fyrir gott starf.
Rannsókn að brunanum stendur nú yfir og komu tveir menn frá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík á mánudag til að sinna tæknirannsókn á staðnum. Þá er von á aðstoð frá rannsóknardeildinni á Selfossi til Eyja í kvöld til aðstoðar deildinni í Vestmannaeyjum við rannsókn á orsökum brunans.
Af þessum tilefni vill Lögreglan í Vestmannaeyjum beina þeim tilmælum til fólks sem gæti haft einhverjar upplýsingar um þetta mál að hafa samband í síma 481 1665. Allar upplýsingar, sama hvað smávægilegar sem þær eru, og hjálpað gætu til við að upplýsa upptök brunans eru vel þegnar. Óskað er eftir upplýsingum um mannaferðir nálægt brunastað en einnig grunsamlegt háttalag t.d. með eldfæri eða eldfim efni, brunalykt sem bent gæti til nálægðar við vettvang o.s.frv.
Lögreglan í Vestmannaeyjum.