8 Júní 2016 16:13

Lögreglumenn ríkislögreglustjóra hafa þegar hafið störf í Frakklandi í tengslum við evrópumótið í knattspyrnu. Tveir lögreglumenn verða staðsettir í stjórnstöð mótsins í París og sex lögreglumenn munu fylgja íslenska liðinu og verða viðstaddir leiki þess.

Þeir lögreglumenn sem eru í stjórnstöðinni munu miðla upplýsingum milli franskra yfirvalda og íslensku lögreglumannanna sem verða viðstaddir leikina. Allar ákvarðanir sem teknar eru í tengslum við mótið fara í gegnum stjórnstöðina. Stjórnstöðin verður opin allan sólarhringinn á meðan á mótinu stendur og munu íslensku lögreglumennirnir hafa viðveru þar á dagvinnutíma og vera með bakvakt á nóttunni.

Hlutverk lögreglumannanna sem verða viðstaddir leikina er að vera tengiliðir milli íslenskra áhorfenda og franskra yfirvalda. Öll stjórnun, skipulag og ákvörðunarvald er í höndum franskra yfirvalda. Því mun hlutverk íslenskra lögreglumanna vera að aðstoða Íslendinga eins og þörf krefur en þeir munu ekki taka ákvarðanir um neinar aðgerðir né hafa lögregluvaldheimildir.

Í tilefni af þessu verkefni hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að opna samskiptamöguleika á samfélagsmiðlunum Facebook, Twitter og Instagram. Þessir miðlar verða notaðir til að koma á framfæri upplýsingum til íslenskra stuðningsmanna.

 Facebook: http://facebook.com/rikislogreglustjorinn

Twitter:http://twitter.com/rikislogrstj – @rikislogrstj

Instagram: http://instagram.com/rikislogrstj

 

Íslendingum í neyð sem staddir eru í Frakklandi skal bent á að hringja í neyðarnúmerið 112 í Frakklandi.

Ríkislögreglustjóri hefur einnig opnað póstfang fyrir almenning til að senda inn fyrirspurnir eða aðstoðarbeiðnir í tengslum við veru íslensku lögreglunnar í Frakklandi. Netfang: em2016@logreglan.is og em2016@police.is