30 Janúar 2009 12:00

Mál sem tengjast hruni viðskiptabankanna

Með lögum nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara, ákvað Alþingi að brot sem tengjast hruni viðskiptabankanna þriggja, Glitnis hf., Kaupþings hf. og Landsbankans hf., skuli rannsökuð af sérstökum saksóknara en ekki efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans. Það er orðað svo í lögunum að hinn sérstaki saksóknari skuli rannsaka „refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar“ framangreindra atburða. Brot þessi eru alla jafna rannsökuð af efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans og hefur hún á þeim tíma sem liðinn er  frá umræddum atburðum annast meðferð þeirra mála sem upp hafa komið, meðan beðið var eftir að hið nýja embætti kæmist á fót.

Með vísan til framangreinds vill efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans minna á að hið nýja embætti sérstaks saksóknara tekur til starfa 1. febrúar n.k.  Frá þeim tíma ber að beina öllum ábendingum, kærum og fyrirspurnum, sem falla undir gildissvið laga nr. 135/2008, til hins sérstaka saksóknara en ekki til efnahagsbrotadeildar.

Efnahagsbrotadeild mun eftirleiðis sem hingað til annast rannsókn og saksókn allra annarra skatta- og efnahagsbrota, sem ekki falla undir framangreint embætti, hvar sem er á landinu og upp kunna að koma í viðskiptum og rekstri allra annarra fyrirtækja og einstaklinga, og falla ekki undir hina þröngu skilgreiningu laga nr. 135/2008.