23 Desember 2005 12:00

23. desember 2005.

Fréttatilkynning

Miðvikudaginn 21. desember 2005 stóð lögreglan í Keflavík og lögreglan á Húsavík fyrir umfangsmikilli húsleit í atvinnuhúsnæði á Vatnsleysuströnd  og 5 íbúðarhúsum í Vogum og Njarðvík. Aðgerðin var liður í rannsókn á stófelldum skotvopnaþjófnaði í nóvemberlok í umdæmi lögreglunnar á Húsavík þar sem 20-30 skotvopnum af ýmsum gerðum var stolið.

Um 20 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni en auk lögreglumanna frá Keflavík og Húsavík unnu að málinu lögreglumenn af Keflavíkurflugvelli, úr Reykjavík og frá sérsveit Ríkislögreglustjórans.

Fimm aðilar voru handteknir í tengslum við aðgerðina en þeir hafa allir verið látnir lausir að loknum yfirheyrslum.

Við húsleitirnar fundust stolnu skotvopnin sem lögreglan á Húsavík leitaði auk þess sem hald var lagt á nokkur skotvopn til viðbótar vegna ætlaðra brota á vopnalögum.

Hald var lagt á 62 kannabisplöntur sem voru í ræktun í atvinnuhúsnæðinu á Vatnsleysuströnd auk nokkurs magns af skornum plöntum. Jafnframt var lagt hald á lampa og annan búnað sem tengdist ræktuninni.

Hald var lagt á um það bil 10 gr. af ætluðu hassi og rúmlega 50 gr. af ætluðu amfetamíni.

Hald var lagt á ætlað þýfi sem tengdist innbroti og þjófnaði í Kópavogi. Loks var lagt hald á snák sem fannst í einu íbúðarhúsinu og hefur hann verið aflífaður og hræinu eytt.