29 Maí 2024 14:22

Eldgos er hafið á Reykjanesskaga nærri Sundhnúkum norðan við Grindavík og virðist staðsett norðaustan við Sýlingafell.    Eldgosið hófst klukkan 12:46 og er á svipuðum slóðum og fyrri gos á Sundhnúksgígaröðinni.

Grindavík, Bláa lónið og orkuverið í Svartsengi voru rýmd fyrir hádegi í dag.   Sú aðgerð gekk vel.  Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík.  Þá dvelja enn þrír íbúar í Grindavík þrátt fyrir tilmæli viðbragðsaðila um að koma sér út úr bænum.  Slík viðbrögð eru ekki til eftirbreytni.  Ekki hefur komið til þess að lögregla hafi beitt valdi í þessum aðgerðum.  Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýst yfir neyðarstigi vegna eldgossins.

Fréttamönnum og blaðamönnum hefur verið hleypt nærri eldstöðvunum í fylgd viðbragsaðila.  Þeir eru með viðeigandi búnað og blaðamannapassa samkvæmt samkomulagi Blaðamannafélags Íslands við lögreglustjórann á Suðurnesjum.  Hamfarasvæðið er að öðru leyti lokað öðrum en viðbragðsaðilum.  Lokunarpóstur er við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar og sem fyrr á Nesvegi og Suðurstrandarvegi.