1 Júní 2024 15:36
Starfsemi Bláa Lónsins opnar á morgun eftir að svæðið var rýmt við upphaf eldgossins sem hófst 29. maí 2024.
Lögreglustjóri hefur farið yfir öryggismál með sínum viðbragðsaðilum og öryggisstjórum Bláa Lónsins. Flóttaleiðir eru nú tvær frá Bláa Lóninu en eins og kunnugt er rann hraun yfir Bláalónsveg og Nesveg sem var önnur tveggja flóttaleiða frá lóninu. Hefur nú verið bætt úr því í samstarfi Bláa Lónsins og HS Orku en einbreiður malarvegur frá Svartsengi tengist Nesvegi vestan Grindavíkur. Þessi malarvegur er lokaður fyrir almennri umferð. Sem fyrr aka gestir og starfsmenn lónsins Reykjanesbrautina og síðan Grindavíkurveg inn að Bláa lóninu.
Á starfssvæði Bláa Lónsins er nú þéttriðið net gasmæla. Þá er veðurstöð staðsett á einni bygginu Bláa Lónsins. Eftirlit og viðbagð við hugsanlegri gasmengun er nú með allt öðrum hætti en áður hefur verið á starfssvæði Bláa Lónsins. Öryggisfulltrúi á vegum fyrirtækisins situr daglega morgunfundi aðgerðastjórnar og vettvangsstjórnar.
Ekki er heimilt að ganga inn á gossvæðið frá bílastæðum Bláa Lónsins eða frá Grindavíkurvegi. Bannið tekur ekki til viðbragðsaðila, hóps vísindamanna og einstaklinga á vegum Blaðamannafélags Íslands með vísan til samkomulags félagsins við lögreglustjórann á Suðurnesjum . Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að vísa á brott eða fjarlægja fólk af hættusvæði.
Þeir sem eiga erindi inn á hættusvæði er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni: https://loftgaedi.is/ Þar eru jafnframt góðar leiðbeiningar. Bent er á upplýsingar á vefsíðu Landlæknisembættisins, á slóðinni: https://island.is/eldgos-heilsa og vefsíðu Vinnueftirlitsins, á slóðinni: https://vinnueftirlitid.is/
Með vísan til 23. gr. laga um almannavarnir nr. 88/2008 eru takmarkanir ekki aðrar en að framan greinir.
Framangreint fyrirkomulag gildir þar til annað verður ákveðið.