26 Mars 2024 15:30

Eldgos hófst á milli Hagafells og Stóra Skógfells laugardagskvöldið 16. mars sl. eftir skammvinna skjálftavirkni.  Gosið hefur nú sjö sinnum frá 19. mars 2021 og er þetta eldgos það fjórða í röðinni á jafnmörgum mánuðum.  Fyrirvari viðbragðsaðila nú var enginn en vel tókst til með að rýma bæði Grindavík og eins Bláa lónið þar sem fjöldi gesta var samankominn.

Það er óbreytt mat lögreglustjóra að ógn geti stafað af hraunrennsli og gasmengun í Grindavík og inn í Svartsengi við núverandi aðstæður.  Hætta er talin á að loftmengun geti ógnað heilsu manna inn á merktu hættusvæði en áfram er aukin hætta vegna gasmengunar.  Við breytilega vindátt getur vart talist forsvaranlegt að halda úti starfsemi í Bláa Lóninu á meðan eldgos er enn í gangi og á það jafnframt við um aðra starfsemi inn á merktu hættusvæði.  Fylgst er vel með loftgæðum á svæðinu m.a. í góðu samstarfi við atvinnurekendur. 

Há gildi af SO(brennisteinsdíoxíð) hafa mælst á svæðinu.   Þessi mengun er talin mjög óholl og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum.  Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu.  Þetta á ekki síst við þar sem vinna fer fram utandyra.  Þá þurfa fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun.  

Lögreglustjóri biðlar til íbúa Grindavíkur svo og aðra sem eiga hagsmuna að gæta inn á merktu hættusvæði að dvelja þar ekki.  Þar geta skapast aðstæður sem geta verið lífshættulegar mönnum. 

Þeir sem eiga erindi inn í Grindavík er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni:  https://loftgaedi.is/    Bent er á gagnlegar upplýsingar á vefsíðu Landlæknisembættisins, á slóðinni:  https://island.is/eldgos-heilsa  og vefsíðu Vinnueftirlitsins, á slóðinni:  https://vinnueftirlitid.is/

Mikilvægt er að hafa neðangreint í huga:

  • Íbúar og starfsmenn fari inn í bæinn á eigin ábyrgð.   Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.  Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik.   Þar eru ekki starfræktir skólar og innviðir eru í ólestri.  Lögreglustjóri mælir alls ekki með því að íbúar dvelji í bænum.
  • Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirvara.   Hætta er á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum.  Hætta er talin mikil á gasmengun og hraunflæði. 
  • Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun.  Þá hafa sprungur verið girtar af.
  • Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega.  Fólk haldi sig við götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.
  • Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja bæjarins, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.  Fjölmiðlafólk hefur heimild til að fara inn í bæinn með sama hætti og íbúar og starfsmenn fyrirtækja.   

Enn eru hættur á svæðinu og aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara.  Þá geta hættur leynst utan merktra svæða.

Lokunarpóstar eru við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar, Nesveg og Suðurstrandarveg.   Flóttaleiðir frá Grindavík eru um Nesveg og Suðurstrandarveg.

Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settar upp þrjár viðvörunarflautur í Grindavík.  Þá er ein slík við Bláa lónið og önnur við HS orku í Svartsengi.  Þær hafa verið notaðar með góðum árangri.

Fáir Grindvíkingar kjósa að dvelja í bænum næturlangtLögreglustjóri mælir alls ekki með því og getur ekki ábyrgst öryggi þeirra við núverandi aðstæður.

Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla og slökkvilið sinna lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur.  Þá er sjúkrabíll staðsettur í Grindavík alla daga á dagtíma.

Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/   þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is og heimasíðu almannavarna á slóðinni  www.almannavarnir.is

Með vísan til 23. gr. laga um almannavarnir nr. 88/2008 eru takmarkanir ekki aðrar en að framan greinir.

Framangreint fyrirkomulag verður tekið til endurskoðunar þriðjudaginn 2. apríl nk. eða fyrr eftir atvikum.