9 Nóvember 2009 12:00

Vegna umfjöllunar fjölmiðla  um mál yfirlæknisins á Eskifirði og hugsanlegs vanhæfis embættis lögreglustjórans á Eskifirði til að fara með rannsókn málsins, nú síðast í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins föstudaginn 6. nóvember 2009, vill embættið taka fram eftirfarandi:

Rétt þykir að fram komi að með bréfi ríkissaksóknara, dags. 15. júlí 2009, er tekin afstaða til bréfs HSA til ríkissaksóknara þar sem lýst var áhyggjum yfir þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að fela embætti lögreglustjórans á Eskifirði að  rannsaka málið að nýju.  Í bréfi ríkissaksóknara kom meðal annars fram eftirfarandi:

„ Lögreglunni á Eskifirði eru vel kunnugir málavöxtum sem ætti að stuðla að hraðari málsmeðferð.  Þá er búið að afmarka rannsóknarþætti málsins verulega.  Í umræddu bréfi er því ekki haldið fram að hér sé um að ræða vanhæfisskilyrði að lögum heldur er talið óheppilegt að rannsóknin fari fram vegna ýmissa almennra atriða.  Á það við í fjölmörgum málum einkum í smærri lögregluumdæmum.  Að þessu virtu er það mat ríkissaksóknara að ekki séu skilyrði til að fela öðrum lögreglustjóra að taka málið til meðferðar.”

Embættið harmar það að reynt sé að gera rannsókn málsins tortryggilega með því að láta að því liggja að annarlegir hagsmunir hafi ráðið við rannsókn málsins.  Það skal tekið fram að við rannsókn fyrrgreinds máls hefur verið farið að þeim lögum, reglum og fyrirmælum sem snúa að því með hvaða hætti skuli rannsaka sakamál.

Það skal að lokum ítrekað að ákvörðun um að rannsókn máls skuli hætt er kæranleg til ríkissaksóknara sem staðfesti fyrri ákvörðun embættisins.  Ekki var kærð til ríkissaksóknara sú ákvörðun embættisins á Eskifirði að falla frá málssókn á hendur yfirlækninum vegna kæru ríkisendurskoðunar.

Embættið ákvað að svara ekki þessum ávirðingum fyrr en að liðnum kærufresti ríkissaksóknara.  Embættið mun ekki tjá sig frekar um rannsókn málsins.

                                                           

Eskifirði 9. nóvember 2009.