17 Október 2013 12:00

Fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hófst í þessari viku. Í gær var röðin komin að Garðbæingum og Álftnesingum, en sveitarfélögin hafa nú sameinast undir merkjum Garðabæjar eins og kunnugt er. Líkt og var í Garðabæ og Álftanesi áður, er staða hins nýja sveitarfélags, hvað varðar afbrot og tíðni þeirra, sömuleiðis almennt góð. Þetta kom greinilega fram á fundinum í gær, en á honum var farið yfir stöðu mála og þróun brota í sveitarfélaginu.

Það var Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 2, sem þjónar m.a. Garðbæingum og Álftnesingum, sem fór yfir helstu tölur. Í máli hans kom m.a. fram að hlutfallslega sé lítið um innbrot á heimili í Garðabæ og að ofbeldisbrot séu þar fátíð. Ómar Smári sagði jafnframt að leitun sé að jafn friðsamlegu svæði í umdæminu og Garðabæ. Sæmilega var mætt á fundinn og var ekki annað að heyra en fundarmenn væru almennt sáttir við gang mála. Tölfræðina frá fundinum má nálgast með því að smella hér.