20 Nóvember 2007 12:00

Kjósarhreppur er fámennasta sveitarfélagið í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en íbúar þess eru um 200. Ástandið í hreppnum er almennt gott og afbrot eru afar fátíð. Þetta kom fram á fundi sem lögreglan hélt í Ásgarði í gær en hann sóttu ýmsir forystumenn í Kjósarhreppi. Líkt og á fyrri fundum, sem lögreglan hefur staðið fyrir á undanförnum vikum, var farið yfir stöðu og þróun mála. Stefán Eiríksson lögreglustjóri hafði um það nokkur orð en Hörður Jóhannesson svæðisstjóri fór síðan nánar yfir hvern brotaflokk. Loks gerði Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn grein fyrir umferðarmálum og síðan var orðið gefið frjálst.

Þrátt fyrir góða stöðu í Kjósarhreppi höfðu fundarmenn um ýmislegt að ræða og margs að spyrja. Þeir höfðu t.d. áhyggjur af hraðakstri á ákveðnum stöðum og íhuga þar lækkun hámarkshraða. Eins töldu nokkrir fundarmanna að taka þyrfti á hraðakstri bifhjólamanna í Hvalfirði. Sömuleiðis var bent á að vart hefði orðið aksturs svokallaðra krossara utan vega og jafnvel á reiðstígum. Á fundinum var einnig upplýst að vandkvæði eru með símasamband á tilteknum stöðum í hreppnum. Fleiri ábendingum og athugasemdum var komið á framfæri en í lok fundarins lýstu fulltrúar Kjósarhrepps yfir ánægju sinni með það framtak lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að boða til þessa fundar.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Sigurbjörn Hjaltason oddviti.