28 September 2011 12:00

Vegna fullyrðingar ríkisendurskoðanda í fréttum Stöðvar 2 og Ríkissjónvarps í gærkvöldi um að ríkislögreglustjóri hafi brotið lög skal vakin athygli á eftirfarandi viðtali við hann sem birtist á mbl. is í gærkvöldi:

Hafnar fullyrðingu um lögbrot

Merki Ríkislögreglustjóra á húsi embættisins. Árni Sæberg

Ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, hafnar því að lög um opinber innkaup hafi verið brotin við innkaup embættisins líkt og ríkisendurskoðandi heldur fram.

„Ríkisendurskoðandi fullyrti í fréttum ríkissjónvarps og Stöðvar 2 í kvöld að ríkislögreglustjóri hefði brotið lög um opinber innkaup. Hann virðist vera algjörlega viss í sinni sök. Ég hafna alfarið þeim fullyrðingum ríkisendurskoðanda að ríkislögreglustjóri hafi brotið lög um opinber innkaup.“

Haraldur segir það þurfa sérstaka söguskoðun til að komast að þeirri niðurstöðu að á þeim tíma, þegar upplausnarástand ríkti í þjóðfélaginu og Alþingi Íslendinga, lýðræðisstofnun landsins, var undir umsátri og lögreglumenn að verja þinghúsið, skuli ríkislögreglustjóra hafa borið að fara í útboðsferli, eins og ríkisendurskoðun telur að ríkislögreglustjóra hafi átt að gera.

„Þetta er í mínum huga einhvers konar eftir á mat,“ segir Haraldur. „Öll þessi kaup sem um ræðir voru að sjálfsögðu gerð með samþykki dómsmálaráðherra á þeim tíma. Hins vegar sér ríkisendurskoðun enga ástæðu til þess að gagnrýna aðkomu dómsmálaráðherra að þessum ákvörðunum og það þykir mér afar athyglisvert, svo ekki sé meira sagt.“

Haraldur segir að í því þjóðfélagsástandi sem þá var ríkjandi hafi lögreglunni verið gjörsamlega ómögulegt að afla þess búnaðar sem þurfti annars staðar frá með jafn skjótum hætti.

„Bretar höfðu sett hryðjuverkalög á Ísland. Löggjöf í Bandaríkjunum hafði breyst vegna hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 og það var vitað um fyrirtæki hér á landi sem gátu útvegað þann búnað sem við þurftum á að halda. Það var ómögulegt annað en að leita til þeirra en um algjört neyðarástand var að ræða sem gerði okkur ógerlegt að leita annað,“ segir Haraldur ennfremur. Lögreglan hafi staðið frammi fyrir því að geta aflað lögreglumönnum með skjótum hætti öryggis- og varnarbúnaðar til að tryggja öryggi þeirra við Alþingishúsið, í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu. Hafi átt að fylgja út í hið ýtrasta lögum um opinber innkaup hefði það verið ógerlegt. 

Haraldur segir að auk þess hljóti neyðarréttarsjónarmið að víkja löggjöf um opinber innkaup til hliðar. Það hefði hinsvegar verið gagnrýni vert ef ríkislögreglustjóri hefði ekki gripið til þeirra úrræða að afla öryggisbúnaðar fyrir lögregluna eins og ríkislögreglustjóri gerði en leita þess í stað eftir útboðum, kannski á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem slíkt hefði getað tekið marga mánuði.

Heimild: Mbl.is – 27.09.2011. Vefslóð: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/09/27/hafnar_fullyrdingu_um_logbrot/