23 Nóvember 2011 12:00
Árleg fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hélt áfram í gær en í Hagaskóla var farið yfir stöðu mála í vesturbænum. Samkvæmt könnun eru Vesturbæingar almennt á þeirri skoðun að lögreglan skili góðu starfi í hverfinu þeirra. Um 85% aðspurðra töldu svo vera en þess ber að geta að könnunin náði einnig til íbúa í miðborginni og á Seltjarnarnesi. Löggæslu á öllu þessu svæði sinnir lögreglustöð 5 en það var Jóhann Karl Þórisson aðalvarðstjóri, sem fór yfir afbrotatölfræðina með fundarmönnum og kynnti jafnframt niðurstöður úr áðurnefndri könnun. Tölfræði frá fundinum má annars nálgast með því að smella hér.
Margt jákvætt kom fram á fundinum en það ánægjulegasta er sú staðreynd að innbrotum í vesturbæ Reykjavíkur hefur fækkað verulega í samanburði við árin 2010 og 2009. Innbrot eru sömuleiðis færri núna en árið 2008 (tímabilið janúar til október). Fundarmenn höfðu margs að spyrja og m.a. var rætt um umferðarmál og nágrannavörslu. Endurskinsmerki voru líka til umræðu en menn telja að alltof fáir noti þennan sjálfsagða öryggisbúnað og undir það tekur lögreglan heilshugar.
Vesturbær Reykjavíkur.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is