4 Nóvember 2009 12:00
Þegar rýnt er í afbrotatölfræði fyrir miðborg Reykjavíkur kemur ýmislegt í ljós en í henni felast þó ekki beinlínis ný tíðindi. T.d. er það alkunna að ofbeldisbrot eru hlutfallslega fleiri á þessu svæði en öðrum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er samt við íbúana að sakast því þeir eru flestir friðsamir og mega ekki vamm sitt vita. Það sama verður hinsvegar ekki sagt um alla þá gesti sem heimsækja miðborgina þegar þeir fara út á lífið um helgar. Í þessu sambandi þarf jafnframt að hafa hugfast að umrædd brot eru framin á mjög afmörkuðu svæði og tíma, þ.e. aðfaranætur laugardags og sunnudags. Á þessu sama svæði eru fjölmörg veitingahús og skemmtistaðir með vínveitingaleyfi og eðlilega flykkist fólkið þangað. Til að bæta ástandið eru ýmsar leiðir færar og ein þeirra er að breyta opnunartíma veitinga- og skemmtistaða. Á þetta hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bent og komið á framfæri við borgaryfirvöld.
Það sem hér hefur verið nefnt var m.a. til umfjöllunar á fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti með fulltrúum ýmissa aðila í miðborginni í gær. Fundur sem þessi er haldinn árlega en hann sóttu 25 manns að þessu sinni en fundað var á Vesturgötu 7. Það var Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri lögreglunnar á þessu svæði borgarinnar, sem fór yfir tölfræðina og kynnti jafnframt helstu breytingar sem hafa átt sér stað hjá embættinu á árinu. Líkt og á flestum öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði innbrotum árið 2008 í miðborginni í samanburði við árin á undan. Framan af þessu ári voru áfram margar tilkynningar um innbrot í miðborginni en um mitt sumar fór þetta ástand að lagast til mikilla muna. Þannig voru innbrot í haust mun færri en fyrir hálfu ári, t.d. í febrúar og mars. Þessu er m.a. að þakka að lögreglunni hefur tekist að handtaka nokkra stórtæka innbrotsþjófa. Margt fleira forvitnilegt kom fram í máli Ómars Smára en tölfræðina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.
Í lok fundarins kynnti Jóhann Karl Þórisson aðalvarðstjóri niðurstöður könnunar um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í henni kemur m.a. fram að íbúar á höfuðborgarsvæðinu telja sig almennt óörugga þegar þeir eru einir á ferð í miðborginni um helgar eftir að myrkur er skollið á. Svo virðist sem óttinn sé meiri eftir því sem fólk býr fjær miðborginni og þetta á oftar við um konur en karla. Sömuleiðis er áberandi að eldra fólk telur miðborgina ekki örugga um helgar þegar myrkur er skollið á. Þessi viðhorf eru um margt athyglisverð og ekki ósennilegt að fjölmiðlaumræðan hafi mikið að segja. Könnunina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.