19 Október 2007 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti góðan fund með ýmsum fulltrúum vesturbæinga í þjónustumiðstöð Vesturbæjar að Hjarðarhaga nú í vikunni. Yfir tuttugu manns sátu fundinn en á honum var m.a. skýrt frá starfi lögreglunnar í hverfinu og farið yfir stöðu og þróun mála. Stefán Eiríksson lögreglustjóri, Eggert Ólafur Jónsson aðalvarðstjóri, Ásgeir Pétur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður og Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn skýrðu frá gangi mála og svöruðu spurningum eftir bestu getu.

Umferðarmál voru fyrirferðarmikil á fundinum en þau eru fólki ávallt ofarlega í huga. Almennt séð er gott ástand í Vesturbænum en af öðrum málum, sem komu til umræðu, má nefna veggjakrot en nokkuð hefur borið á því í hverfinu. Einnig voru nefnd til sögunnar innbrot í bíla á ákveðnum svæðum. Fleiri mál voru auðvitað rædd svo og hugmyndir um hvernig skuli brugðist við því sem miður hefur farið.

Lögreglan hélt ámóta fund í þjónustumiðstöðinni fyrir ári síðan en þetta fyrirkomulag er klárlega komið til að vera. Á fundinum nú var einnig viðruð sú hugmynd að halda opinn fund með íbúum hverfisins. Afar vel var tekið í þá hugmynd og er líklegt að af því geti orðið snemma á næsta ári. Tilgangur fundarins í vikunni var m.a. að koma sjónarmiðum og viðhorfum lögreglu á framfæri og þá ekki síður að heyra hvað brennur á fólki í Vesturbænum. Svæðisstöð lögreglunnar í Vesturbæ Reykjavíkur er staðsett á Eiðistorgi 17 en þar hafa fyrrnefndir Eggert Ólafur Jónsson og Ásgeir Pétur Guðmundsson aðstöðu en félagarnir eru einmitt saman á myndinni hér að ofan. Hér að neðan er það hinsvegar Egill Bjarnason sem fer yfir stefnu og markmið umferðardeildar LRH.