7 Desember 2012 12:00

Árlegri fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu lauk í gær. Síðasti viðkomustaðurinn að þessu sinni var Ásgarður í Kjósarhreppi en þar hittu fulltrúar lögreglunnar hreppsnefndarmenn að máli á góðum fundi. Líkt og áður var farið yfir þróun brota á svæðinu, en í Kjósarhreppi var það fljótgert. Íbúar í hreppnum eru til fyrirmyndar, allir sem einn, og lítið sem ekkert um brot. T.d. hafa engin ofbeldisbrot verið skráð í Kjósarhreppi undanfarin ár og þá eru slys þar fátíð. Stöku sinnum er reyndar brotist inn í sumarhús á svæðinu og um það var aðeins rætt á fundinum.

Að venju var vel tekið á móti fulltrúum lögreglunnar en boðið var upp á kaffi og gómsætar smákökur. Sigurbjörn á Kiðafelli leyfði fundarmönnum líka að smakka á kjötmeti, sem var hreinasta lostæti. Fundurinn í gær var sá fjórtandi í röðinni hjá fulltrúum lögreglunnar þetta árið, en svokallaðir hverfa- og svæðafundir hafa nú verið haldnir um nokkurra ára skeið og hefur það gefist vel. Sú nýbreytni var tekin upp í vetur að senda marga fundanna út í beinni útsendingu á netinu og féll það í góðan jarðveg. Vel kann að vera að það verði gert aftur að ári en lögreglan er sífellt að leita leiða til að bæta upplýsingamiðlun til almennings. Tölfræðina frá fundinum í Ásgarði má annars nálgast með því að smella hér.

Kjósarhreppur (tekið af kjos.is)

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is