31 Maí 2005 12:00

Fundargestir fyrir framan Hótel Loftleiðir.

Árlegur fundur afbrotavarnaráða Norðurlandanna var haldinn í Reykjavík 23. maí sl. og hélt embætti ríkislögreglustjóra fundinn að þessu sinni.  Þar gerðu fulltrúar landanna grein fyrir verkefnum sem unnið er að á Norðurlöndunum, þar sem Danir sögðu meðal annars frá rannsókn um lífsstíl ungs fólks og ofbeldi á meðan Norðmenn eru auk annars að skoða hvernig forvörnum í fangelsum er háttað.  Sænska afbrotavarnarráðið leggur áherslu á fræðilegar rannsóknir og að miðla niðurstöðum og þekkingu sem þannig fæst inn í réttarvörslukerfið í Svíþjóð.  Í Finnlandi er unnið að rannsóknum á ofbeldi á vinnustöðum og sérstaklega ofbeldi gegn konum, en íslensku fulltrúarnir gerðu grein fyrir starfi og rannsóknum Lýðheilsustöðvar og samstarfsverkefninu Vertu til, sem miðar að því að styrkja forvarnarstarf í sveitarfélögum landsins, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.  Þá voru kynntar niðurstöður rannsóknar sem unnin var fyrir embætti ríkislögreglustjóra um viðhorfi ungs fólks til forvarnarstarfs lögreglunnar og aðgengi að fíkniefnum.

Skipulag og uppbygging afbrotavarnarráða á hinum Norðurlöndunum er með mismunandi hætti.  Hér á landi hefur sérstöku afbrotavarnarráði ekki verið komið á fót, en árum saman hefur lögreglan, í samvinnu við aðra, unnið að forvörnum á sviði afbrota.

Á næsta fundi afbrotavarnarráða, sem haldinn verður í Finnlandi, verður fjallað um ofbeldi í tengslum við áfengisneyslu og ofbeldi gegn konum o.fl.

Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar á fundinum.