28 Júlí 2005 12:00

Fulltrúar lögreglunnar og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins áttu fund í gær með nokkrum atvinnubílstjórum sem hafa lýst því í fjölmiðlum að þeir muni trufla og jafnvel stöðva umferð um aðalsamgönguæðar til og frá höfuðborginni um næstu helgi, til að mótmæla gildistöku laga um olíugjald og kílómetragjald frá 1. júlí sl.  Á fundinum, sem yfirlögregluþjónar frá ríkislögreglustjóra og lögreglunni í Reykjavík, og sviðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins,  áttu með atvinnubílstjórunum, var þeim afhent skrifleg ábending lögreglu og slökkviliðs sem birt er hér í heild:

Ábending

lögreglu til þeirra er hyggjast með ólögmætum hætti

hindra umferð vegfarenda

Af hálfu lögreglunnar og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er það litið mjög alvarlegum augum ef ökumenn og/eða umráðamenn flutningabifreiða hindra umferð annarra vegfarenda, svo sem með því að leggja bifreiðum á akbrautir, en aðgerðir í þá veru hafa verið boðaðar í fjölmiðlum. Komi til þessara aðgerða er alls óvíst um afleiðingar en þær kunna að verða margvíslegar og ófyrirséðar. Þó er ljóst að hættuástand telst hafa myndast þar sem neyðarakstur lögreglu, slökkviliðs og sjúkrabíla stöðvast eða tefst verulega. Velferð fólks og efnislegum verðmætum yrði stefnt í stórfellda hættu af þessum sökum. Af slíkum aðgerðum hlytist einnig margvíslegt óhagræði fyrir hinn almenna vegfaranda sem ekkert hefur til saka unnið og ekkert gert á hlut þeirra sem boðað hafa aðgerðir.

Lögregla hefur kannað nokkur ákvæði refsilaga sem kunna að taka til þeirrar háttsemi sem boðuð hefur verið og má hugleiða eftirfarandi í því sambandi.

1.         Umferðarlög nr. 50/1987: 4. gr. (Meginreglur) 5. gr. (Leiðbeiningar) og 27. gr. (Stöðvun ökutækis og lagning þess)

2.         Almenn hegningarlög nr. 19/1940: 176. gr. ( Ýmis brot á hagsmunum almennings).  168. gr. (Brot sem hafa í för með sér almannahættu). Þá kemur til álita í refsimáli að gera kröfu um upptöku á ökutæki skv. 69. gr. alm. hgl.

3.         Lögreglusamþykkt Reykjavíkur nr. 506/2004: 18. gr. (Um ökutæki, umferð o.fl.).

4.         Lögreglulög nr. 90/1996: 15. gr. (Aðgerðir í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl.).

 Vakin er athygli á því að almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til að halda uppi lögum á almannafæri. (19. gr. lögreglulaga).

Lögreglan beinir þeim tilmælum til þeirra sem boðað hafa aðgerðir svo sem rakið hefur verið að hætta við allar slíkar fyrirætlanir.

Reykjavík, 27. júlí 2005

      F.h. Lögreglunnar í Reykjavík                      F.h. Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins

F.h. ríkislögreglustjóra