30 Október 2007 12:00

Ekki var annað að heyra en allt væri í miklum blóma á Seltjarnarnesi þegar lögreglan fundaði þar í síðustu viku með fulltrúum ýmissa aðila í bænum. Um tuttugu og fimm manns sátu fundinn og var almenn ánægja með stöðu mála en einn fundarmanna sagði að á Seltjarnarnesi væri fyrirmyndarsamfélag. Sami aðili bætti við að menn mættu samt ekki sofna á verðinum og þyrftu að vera áfram vakandi til að viðhalda þessu góða ástandi. Tiltölulega lítið er um afbrot á Seltjarnarnesi samanborið við mörg önnur svæði í umdæminu og þá virðist staða unglingamála þar vera í góðu lagi. Lítið ber á hópamyndun en lögreglan verður þó vör við partístand öðru hvoru. Á fundinum var einnig rætt um foreldrarölt og eftirlitsmyndavélar en mestur tíminn fór þó í umfjöllun um umferðarmál.

Þetta haustið hafa menn nokkrar áhyggjur af umferð um Suðurströndina en þar standa yfir töluverðar framkvæmdir. Þess ber að geta að frá Suðurströnd er aðgengi að íþróttahúsi og sundlaug og því er mikil umferð um götuna en bæjaryfirvöld íhuga nú að lækka þar hámarkshraða. Á fundinum kom fram að skólayfirvöld hafa átt mjög gott samstarf við lögregluna en svæðisstöð hennar er staðsett á Eiðistorgi 17. Þar hafa aðstöðu Eggert Ólafur Jónsson aðalvarðstjóri, Ásgeir Pétur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður og Davíð B. Guðbjartsson lögreglumaður en samanlagður starfsaldur þeirra í lögreglunni er 100 ár! Á fundinum varpaði Stefán Eiríksson lögreglustjóri fram þeirri hugmynd að halda opinn fund með íbúum Seltjarnarness og væntanlega getur orðið af því síðar í vetur. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá fundinum í síðustu viku en á þeirri efstu, talið frá vinstri, eru Eggert Ólafur Jónsson, Stefán Eiríksson og Ásgeir Pétur Guðmundsson.