3 Nóvember 2003 12:00

Fyrsta opinbera málið sem sent er til umfjöllunar hjá EFTA dómstólnum í Luxemborg.

Föstudaginn 24. október sl. fór fram málflutningur fyrir EFTA dómstólnum í Luxemborg vegna fyrsta refsimálsins sem kemur til kasta dómstólsins. Málið barst EFTA dómstólnum frá Héraðsdómi Reykjaness á grundvelli 34. gr. samnings EFTA ríkjanna um stofnun eftirlits stofnunar og dómstólsins, frá 1992. Í 34. gr. er heimild fyrir dómstóla aðildarríkja EFTA til að beina beiðnum til EFTA dómstólsins um ráðgefandi álit á skýringu EES samningsins og reglna sem á honum byggja. Umrætt ákvæði hefur það að markmiði að tryggja einsleita framkvæmd EES reglna á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Umrætt mál er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness á grundvelli ákæru Ríkislögreglustjórans á hendur þremur mönnum. Hinum ákærðu mönnum einum framkvæmdastjóra íslensks útflutningsfyrirtækis og tveimur fyrirsvarsmönnum fiskvinnslufyrirtækis er gefið að sök að hafa á árunum 1998 og 1999 brotið gegn tollalögum og almennum hegningarlögum þegar þeir fluttu út í 76 skipti samtals 803.962 kg. af söltuðum þorskafurðum til fimm landa Evrópusambandsins með rangan tilgreindan uppruna.  Hráefnið hafði útflutningsfyrirtækið flutt inn frá Rússlandi og Bandaríkjunum og flutt út aftur eftir að fiskurinn hafði verið þýddur upp, flattur eða flakaður og saltaður af fiskvinnslufyrirtækinu.  Ákærðu er gefið að sök að hafa komið félögunum undan greiðslu aðflutningsgjalda við innflutning til Evrópusambandsríkjanna samtals kr. 56.976.103 með því að tilgreina upprunan á útflutningspappírum sem íslenskan þrátt fyrir að hann uppfyllti ekki skilyrði milliríkjasamninga til að geta talist íslenskur. Samningar Íslands við Evrópusambandið þ.e. bókun 9 við EES samninginn og ákvæði fríverslunarsamnings Íslands og Evrópusambandsins frá 1972 tryggja íslenskum sjávarafurðum tollfríðindi en það sama á ekki við um fiskafurðir sem aflað er utan lögsögu EES ríkjanna af skipum annara þjóða.

Mál þetta er dæmi um sífellt flóknara regluverk um atvinnurekstur á Íslandi sem gerir ríkar kröfur til þeirra sem þar starfa um þekkingaröflun og öflun sérfræðiþjónustu. Enn fremur er þetta mál dæmi um að milliríkjasamningar og alþjóðastofnanir eru komnar með hlutverk í meðferð refsimála á Íslandi. Hlutverk þeirra í þessu máli hvílir á því að efnisreglur þær sem ákærðu er gefið að sök að hafa brotið eru hluti af EES samningnum. EFTA dómstóllinn hefur síðan það hlutverk að gefa ráðgefandi álit um skýringar reglnanna sem dómstólar aðildarríkjanna ber að taka tillit til í úrslausnum sínum.

Af sömu ástæðum verða rannsóknir sakamála, þar sem reynir á hið flókna regluverk og hinir grunuðu eru í raun sérfræðingar á sínu sviði, sífellt flóknari og gera meiri kröfur til þekkingar rannsóknaraðila lögreglu og eftirlitsaðila. Auk þess sem rannsóknir þessara brota þurfa að fara fram í góðu samstarfi lögreglu og eftirlitsaðila.  Á sama hátt gera mál sem þessi miklar kröfur til sækjenda málanna sem þurfa að búa málin í þann búning að til skila komist auk þess að færa fram sönnur fyrir dómi um hin flóknu brot. Á sama hátt þurfa dómarar sem fá slík mál til meðferðar setji sig inn í regluverkið sem starfsemin lýtur og hafa þekkingu til að fjalla um málin.

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans hefur lagt áherslu á að byggja upp slíka þekkingu bæði hjá rannsakendum og ekki síður sækjendum deildarinnar. Slík þekkingaröflun er dýr og krefst tíma auk þess sem regluverkið er sífelldum breytingum undirorpið svo þekkingaröfluninni lýkur í raun aldrei heldur er hún sífelld.